Um FISK Seafood
Sérhæfing í bolfiski
Fisk Seafood ehf. er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Félagið sérhæfir sig í veiðum á bolfiski og vinnslu hans í sjófrystar og léttsaltaðar afurðir auk framleiðslu á hefðbundnum saltfiski. Félagið hefur aðsetur og rekur stærstan hluta starfsemi sinnar á Sauðárkróki en í samstæðu þess eru einnig Soffanías Cecilsson ehf. í Grundarfirði, útgerðarfélögin Kiddi Dóra ehf. og Steinunn ehf. ásamt eignarhaldsfélaginu FISK Seafood fjárfesting ehf. Samstæðan gerir út einn frystitogara, tvo ferskfisktogara og tvo ísfisktogara auk smærri skipa og báta. Hjá henni starfa hátt í 300 manns og koma um 83% tekna félaganna erlendis frá en aðrar tekjur, einkum vegna annars afla en þorsks og ufsa, frá fiskmörkuðum sem áframselja afurðina að stórum hluta á erlenda markaði. Samstæðan selur stærsta hluta útflutnings síns í gegnum Iceland Seafood International til Suður-Evrópu og Bretlands. Einnig eru Portúgal, Ítalía, Holland og Nígería mikilvæg markaðssvæði.
FISK Seafood leggur mikla áherslu á sjálfbærni í öllum rekstri sínum og er staðráðið í að ná því lögbundna markmiði að starfsemin verði með öllu orðin kolefnishlutlaus árið 2040. Á meðal leiða að þeim árangri er fyrirhuguð nýbygging hátæknifrystihúss, endurnýjun skipa og kælimiðla um borð í núverandi flota, enn frekari flokkun á úrgangi og minnkun urðunar, minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis og kolefnisjöfnun rekstursins með skógrækt.
Stærstu óvissuþættir í daglegum rekstri FISK Seafood eru annars vegar tengdir ákvörðunum stjórnvalda um fiskveiðiheimildir og hins vegar menningu, kaupmætti og neyslumynstri á helstu markaðssvæðum. Sömuleiðis er verðsamkeppni á alþjóðlegum matvælamarkaði og gengisskráning helstu gjaldmiðla á meðal rekstrarþátta sem félagið hefur ekki á valdi sínu. Til lengri tíma litið er þróun lífríkis hafsins vegna aukinnar súrnunar og mengunar, með tilheyrandi mögulegum áhrifum á ímynd villibráðarinnar sem þangað er sótt, á meðal þess sem sjávarútvegurinn, og raunar heimsbyggðin öll, þarf að takast á við.
Rekstur samstæðu FISK Seafood er háður ítarlegu regluverki og opinberu eftirliti hvað varðar fiskveiðar, vinnslu og sölu á afurðum. Félagið leggur áherslu á að viðhafa og fylgja eftir skýrum ferlum og eftirlitskerfum svo að tryggt verði að rekstur þess uppfylli gerðar kröfur til hins ýtrasta. Rekjanleiki afurðanna, sjálfbærni starfseminnar, umhverfisþættir og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna skipta þar miklu máli.
Starfsemi FISK Seafood á rætur sínar að rekja til ársins 1955 þegar Kaupfélag Skagfirðinga stofnaði Fiskiðju Sauðárkróks. Hún varð síðar hluti af FISK Seafood og hefur vöxtur félagsins síðan einkum orðið með kaupum á fiskveiðiheimildum og samruna við önnur sjávarútvegsfyrirtæki. Helst má þar nefna Útgerðarfélag Skagfirðinga, Skjöld, Hraðfrystihús Grundarfjarðar, Soffanías Cecilsson og Skagstrending. Félagið er um þessar mundir hið þriðja stærsta í úthlutuðum bolfiskkvóta á Íslandsmiðum.
FISK Seafood er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga sem er samvinnufélag u.þ.b. 1.300 einstaklinga sem flestir eru búsettir í Skagafirði. Margir þeirra hafa verið eða eru starfandi í landbúnaði og tengdri starfsemi í héraðinu. Í hinu dreifða eignarhaldi með sinni lýðræðislegu ákvarðanatöku er fólgin rík skuldbinding og tryggð félagsins við heimahagana.
„...og þjóðinni er í blóð borin virðing fyrir öllum þeim sem hafa sótt fyrir okkur sjóinn við erfiðar og ógnandi aðstæður