Ávarp framkvæmdastjóra

Virðing

Ég geri ráð fyrir því að um allan heim sé það viðurkennt að fiskveiðistjórnunarkerfi okkar Íslendinga sé í fremstu röð. Okkur hefur ekki eingöngu tekist að stunda veiðarnar með sjálfbærum hætti eftir að kvótakerfið var innleitt. Við höfum einnig náð að tryggja viðunandi arðsemi af veiðum og vinnslu þrátt fyrir harða samkeppni við erlend risa fyrirtæki sem að auki njóta í flestum tilfellum gríðarmikilla ríkisstyrkja. 

Í þessu alþjóðlega samhengi er íslenski sjávarútvegurinn samt agnarsmár. Hlutdeild okkar í fiskveiðum á heimsvísu er aðeins í kringum 1%. Þegar fiskeldi er talið með, sem um þessar mundir vex hratt á milli ára víða um heim, er hæpið að framlag Íslands til fiskmetis á diska heimsbyggðarinnar nái hálfu prósentustigi. Og jafnvel þótt öll íslensku sjávarútvegsfyrirtækin myndu sameinast í eitt dygði það ekki til þess að komast inn á lista 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims. Þess vegna hefur góður árangur og afkoma okkar í fiskveiðunum vakið jafn mikla athygli og raun ber vitni.

Við tölum gjarnan um hina dýrmætu auðlind sem Íslendingum er treyst fyrir í hafinu. Og það eru orð að sönnu. Um aldir hélt hún í okkur lífinu á sama tíma og þjóðin þurfti að sjá á eftir þúsundum sjómanna týna lífi sínu á íslensku fiskimiðunum. Saga okkar er samofin sjómennskunni og þjóðinni er í blóð borin virðing fyrir öllum þeim sem hafa sótt fyrir okkur sjóinn við erfiðar og ógnandi aðstæður. Enda þótt öryggismál sjómanna hafi gjörbreyst til hins betra njóta þeir enn, og munu eflaust gera um langa framtíð, aðdáunar fyrir það erfiða starf sem þeir sinna og þau miklu verðmæti sem þeir afla fyrir þjóðarbúið.

Við berum líka mikla virðingu fyrir uppsprettunni sjálfri – lífríkinu í hafinu. Vel kann að vera að hér áður fyrr hafi verið litið á það sem sjálfsagðan hlut rétt eins og sólskin og rigningu. Um langa hríð hefur okkur samt verið ljóst að svo er alls ekki. Fiskarnir í sjónum eru takmörkuð auðlind sem þjóðin á í sameiningu og má aldrei ganga svo nærri að stærðum einstakra fiskistofna sé ógnað. Þess vegna eru öflugar hafrannsóknir og vönduð veiðiráðgjöf okkur gríðarlega mikilvæg. 

Og aflinn sem við færum á land skipar einnig virðingarsess. Við höfum í krafti þekkingar og tækni stóraukið nýtingu sjávarfangsins nánast ofan í hvert einasta bein þess, roð og innyfli. Í þeim efnum höfum við lengi haft frumkvæði, verið fyrirmynd annarra þjóða og notið verðskuldaðrar viðurkenningar á síðustu árum og áratugum.

Við fengum auðlindir okkar í hafinu, gróðursælu og gefandi landinu, orkunni í fallvötnum þess og jarðvarma, náttúrufegurðinni, og nú síðast jafnvel líka í hreinleika andrúmsloftsins að gjöf frá móður náttúru eftir þrotlaust þróunarstarf hennar í milljarða ára. Í greipar hafsins sækjum við gríðarlegt magn villibráðar sem að öðru leyti er nánast með öllu horfin af matardiskum heimsbyggðarinnar enda flest dýr og plöntur til matvælaframleiðslu alin eða ræktuð. 

Ef virðing fyrir gæðum, hreinleika og uppruna matvælanna minnkar getur samkeppnisumhverfi hefðbundinna fiskveiða, og þá ekki síst ef jafnvel erfðabreyttur eldisfiskur verður ódýrari en sá villti, orðið verulega krefjandi. Þess vegna ber okkur að sýna hinu villta lífi hafsins virðingu og varðveita orðspor þess eftir fremsta megni. Stærsta ógnunin í þeim efnum er auðvitað mengunin sem eðlilega er stöðugt áhyggjuefni um allan heim. Þegar hlýnun andrúmsloftsins, með tilheyrandi hækkun hitastigs og súrnun sjávar, bætist við er ljóst að veiðar villtra fiska á hafi úti eiga í vök að verjast. 

Öll umgengni okkar við auðlindina grundvallast á þekkingu og skilningi. Þekkingu sjómennskunnar, fiskvinnslunnar, markaðssviðsins, vísindanna, tæknigeirans og annarra sem daglega starfa innan sjávarútvegsins eða tengjast honum með beinum hætti. Þennan skilning á hafinu í kringum landið byrjuðu Íslendingar að þroska þegar fyrsta bátnum var ýtt úr vör til veiða á landnámsárunum. Þekkingin sem fólgin er í mannauði sjávarútvegsins til sjós og lands er sjálfstæð auðlind og langt í frá minni en sú sem syndir í lögsögunni. Hún nær líka til sjálfbærrar fiskveiðistjórnunar, vinnslu og nýtingar aflans, tæknivæðingar og sjálfvirkni, geymslu sjávarfangsins, þróun og framleiðslu alls kyns hliðarafurða úr sjávarafurðum og síðast en ekki síst skilnings á lögmálum hins alþjóðlega neyslumarkaðar. 

Við höfum sjálf vald á mörgum þessara þátta og erum þar af leiðandi okkar eigin gæfu smiðir. Fyrir þekkingunni þurfum við ekki aðeins að bera virðingu heldur hafa það líka hugfast að hún endurnýjast ekki af sjálfu sér. Það eru miklir hagsmunir í húfi og við þurfum að fá ungt fólk til að mennta sig á öllum sviðum sjávarútvegsins. Og það gerist ekki nema með því að atvinnugreinin og allt sem henni tengist sé aðlaðandi vinnuumhverfi bæði hvað varðar öryggi og aðbúnað. 

FISK Seafood nálgast verkefni sín af mikilli virðingu fyrir þeirri auðlind sem fyrirtækinu er trúað fyrir. Þar hef ég ekki einungis hafið í huga heldur ekki síður – og raunar enn frekar - starfsfólkið. Án sjósóknar og vinnslu aflans væri auðlindin einskis virði. Aðgengi okkar að þekkingu starfsfólksins og daglegu framlagi þess til starfseminnar er í raun eina auðlindin sem við höfum tök á að rækta og næra eins og við best getum án duttlunga þeirra utanaðkomandi áhrifa sem við höfum ekki vald á. Í þessum mannauði er fólginn lykillinn að árangri okkar í veiðum og vinnslu sjávarfangsins. Fyrir því berum við djúpa virðingu.