Umhverfisþættir
Kolefnisjöfnun og sjálfbærni
Samstæða FISK Seafood vinnur eftir skilgreindri umhverfisstefnu sem hefur það að meginmarkmiði að ganga vel um þær auðlindir sem við nýtum og þá orkugjafa sem við notum. Aukin sjálfbærni í umhverfismálum næst m.a. með vandaðri flokkun á úrgangi, lágmörkun urðunar, nútímalegri uppfærslu kælimiðla, minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis og kolefnisjöfnun rekstursins með skógrækt.
Árið 2021 keypti FISK Seafood jörðina Brennigerði í Skagafirði þar sem stunduð hafði verið skógrækt frá árinu 1972. Stefna félagsins er að halda þeirri skógrækt áfram og nýta það starf til að kolefnisjafna þá þætti rekstursins þar sem ekki er unnt að koma í veg fyrir kolefnislosun að fullu.
Á árinu hófst vinna við uppsetningu á Power BI gagnagrunni sem verið er að þróa til uppsetningar á gagnvirku mælaborði þar sem fylgjast má með innkaupum, olíunotkun og fleiru sem tengist umhverfis- og sjálfbærnimálum í rauntíma.
Hringrásarhagkerfið
Með nýjum lögum um hringrásarhagkerfið ber félaginu skylda til að sinna flokkun og skilum á úrgangi skv. nákvæmu regluverki. Stærstu breytingarnar eru fólgnar í greiðari aðgangi að flokkunarílátum auk þess sem við fáum vigtunartölur fyrir þann úrgang eða óunnið hráefni sem við skilum til endurvinnslustöðva. Þetta er okkur hvatning til gera enn betur í flokkun á þeim úrgangi sem fellur til. Seinni hluta ársins 2022 hófst undirbúningur fyrir flokkun „heimilisúrgangs“ um borð í ferskfiskskipum og í landvinnslunni á Sauðárkróki. Íslenska Gámafélagið hefur séð um sorphirðu á Grundarfirði og árið 2023 mun það taka við sorphirðu í Skagafirði. Stefnt er að því að flokkun og vigtun á úrgangi hjá starfsstöðvum á Sauðárkróki verði komin í fastar skorður í árslok.
Veiðarfærum er ávallt safnað saman og komið til söfnunarstöðva sem sjá um að koma þeim til endurvinnslu. Samkvæmt gögnum frá Ísfelli á Sauðárkróki sendum við þangað á árinu 30,2 tonn af veiðarfærum til endurvinnslu. Í þeim voru HDPE efni 24,2 tonn, PA efni 1,5 tonn. Það sem ekki var hægt að endurnýta og fór í brennslu/urðun voru 4,5 tonn. 85% af ónýtum veiðarfærum okkar fóru því aftur í hringrásarhagkerfið. Einnig skiluðum við inn um 15 tonnum af gúmmílengjum. Eitt af umhverfisverkefnum ársins 2023 verður að ná gögnum frá fleiri móttökustöðvum fyrir veiðarfæri og fá frá þeim betri skráningar á skilum veiðarfæra.
Einn af mikilvægustu þáttum vegna upplýsingaöflunar í hringrásarhagkerfinu fæst af innkaupareikningum er varðar tegundir aðkeyptra plastefna, það er tegund og þyngd einstakra efna. Í dag tilgreina fyrirtæki gjarnan vörur á reikningi sínum sem stykki, rúllur og kassa án þess að gefa upp tegund plastsins, t.d. HDPE eða LPDE, eða þyngd. Vonandi er að á því verklagi verði breyting hið allra fyrsta svo hægt sé að tölvukerfi geti lesið slík gögn beint af reikningum..
Eitt óhappsatvik varð á árinu þar sem Arnar HU-1 tapaði veiðarfærunum við Reykjaneshrygg. Skipið varði þremur sólarhringum í tilraunir til að slæða upp veiðarfærin en hafði ekki erindi sem erfiði í þeirri tilraun nema að litlu leyti. Á þessum slóðum er hafsbotninn gríðarlega erfiður til leitar þar sem tindar og hryggir eru háir og hvassir. Tilkynning var send til Landhelgisgæslu og Fiskistofu þar sem getið var um staðsetningu veiðarfæranna auk frekari upplýsinga sem krafist er í reglugerð 474/2020 með síðari breytingum. Skuttogarinn Tómas Þorvaldsson fékk veiðarfærin í trollið nokkrum mánuðum seinna og eru hlerarnir það eina sem ófundið er.
„Í þessum mannauði er fólginn lykillinn að árangri okkar í veiðum og vinnslu sjávarfangsins. Fyrir því berum við djúpa virðingu.
Ábyrgar fiskveiðar
Það er hagsmunamál þjóðarinnar, og raunar heimsbyggðarinnar allrar, að nýting fiskistofna sé sjálfbær. FISK Seafood kappkostar að að ganga vel um auðlindir hafsins með gagnsæjum og rekjanlegum veiðum jafnframt því að fara í hvívetna að lögum, reglum og samþykktum um veiðar. Til að staðfesta hollustu félagsins við sjálfbæra nýtingu auðlinda og ábyrgar fiskveiðar hefur félagið hlotið IRF vottun (Iceland Responsible Fisherises) auk þess sem lögbundið eftirlit Fiskistofu fer fram.
FISK Seafood gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að nýting fiskistofna sé sjálfbær og að heilbrigði lífríkis sjávar um allan heim sé varðveitt af alefli. Árið 2011 stofnuðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Landsamband smábátaeigenda sjálfseignarstofnunina Ábyrgar fiskveiðar. Tilgangurinn var að annast rekstur vörumerkja um ábyrgar fiskveiðar, gerð og viðhald samninga um vottun ábyrgra fiskveiða, miðlun upplýsinga um fiskveiðar Íslendinga, með sérstakri áherslu á kaupendur og neytendur íslenskra sjávarafurða, og önnur skyld verkefni. Markmið félagsins er að stuðla að og viðhalda ábyrgum fiskveiðum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. FISK Seafood er aðili að þessu félagi í gegnum Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi
FISk Seafood er hluthafi í ISF (Iceland Sustainable Fisheries). Félagið var stofnað 2012 af nokkrum fyrirtækjum sem stunda veiðar, framleiðslu og sölu á íslenskum sjávarafurðum víða um heim. FISK Seafood starfar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum sem hafa það að markmiði að tryggja rekjanleika afurða frá veiðum til kaupenda auk þess að vinna eftir kerfum sem fela í sér hættugreiningu sem hámarkar gæði og öryggi afurða.
Orkunýting
Árið 2022 notuðu skip samstæðunnar um 7,7 milljónir lítra af eldsneyti sem áætlað er að losi tæplega 21 þúsund tonn af CO2 ígildum. Bílar lyftarar og önnur flutningstæki losuðu um 4,8 tonn af CO2 ígildum. Á móti þessari losun voru veidd um 23.543 tonn af slægðum fiski. Þetta samsvarar losun upp á 1,1 tonn af CO2 ígildi á hvert tonn af slægðum fiski. Af þessari olíu voru greiddar um 91,9 milljónir króna í kolefnisgjöld. Á síðustu árum hefur félagið unnið að því markmiði að vera með færri og hagkvæmari skip, bæði hvað varðar olíunotkun og veiðigetu.
Olíunotkun skipa er háð mörgum þáttum. Helst má nefna að ástand, samsetning og staðsetning fiskistofna ræður miklu um þann siglingartíma sem þarf til að sækja rétt samsettan afla Einnig hafa veður og hafstraumar áhrif á olíueyðslu. Annar þáttur sem hefur veruleg áhrif á olíunotkun fyrir hvert veitt tonn er hversu vel tekst að nýta veiðigetu skipanna. Við leggjum áherslu á að skipstjórnarmenn nýti landrafmagn í inniveru skipa eins og kostur er.
Árið 2020 ákvað Umhverfisstofnun að úrgangsolía yrði flokkuð sem hráefni til endurvinnslu og hefur það áhrif til lækkunar á útreiknuðu kolefnisspori félagins. Árið 2022 skilaði félagið inn um 59.300 lítrum af úrgangsolíu til endurvinnslu.
Olíunotkun skipa milli ára
Olíunotkun skipa 2022
Olíunotkun á veitt tonn
Rafmagn
Árið 2022 notaði FISK Seafood samstæðan rúmlega 6.148.253 kílóvattstundir af rafmagni. Áhersla er lögð á notkun endurnýtanlegra orkugjafa eins og kostur er, t.d. með því að tengja skip í landrafmagn þegar þau eru í höfn. Á árinu var gengið frá sölu á seiða- og bleikjueldisstöðvum FISK Seafood og skýrir það að hluta til lækkun um 1.884.000 kílóvattstundir í rafmagnsnotkun á milli ára. Skip félagsins notuðu samtals um 397.000 kílóvattstundir í landtengingu sem er um 23.000 kílóvattstunda aukning á milli ára. Öll raforka samstæðunnar er 100% endurnýjanleg.
Kælimiðlar
FISK Seafood hefur unnið markvisst að því að skipta út ósoneyðandi kælimiðlum þegar tækifæri hafa gefist til. Í lok ársins voru engir vetnisklórflúorkolefnismiðlar (HCFC) í notkun hjá félaginu. Aftur á móti er talið skv. loftlagsáætlun atvinnulífsins að sjávarútvegur beri ábyrgð á um helmingi losunar landsins vegna HFC kælimiða. Markmið næstu ára er að fjarlægja þessa HFC kælimiðla og setja upp ammoníaks- eða CO2 kerfi í staðinn. Kælimiðlar sem notaðir eru í dag eru að langstærstum hluta ammoníak, einnig eru R134a, R404A, R407a, R449 notaðir. Árið 2022 var bætt um 260 kg af HFC kælimiðlum á kerfi félagsins sem reiknast sem 760 tCO2í.
Vistferilsgreining skipa
FISK Seafood tekur ásamt fleiri sjávarútvegsfyrirtækjum þátt í verkefni með Matís og Háskóla Íslands þar sem verið er að vistferilsgreina (LCA greining) veiðar félagsins og bera niðurstöður saman við greiningu sem gerð var fyrir skip félagsins. Greiningin er framhald af eldra verkefni sem unnið var með Matís á árunum 2012-2014. Markmið framhaldsverkefnisins er að athuga hvort nýrri skip í núverandi flota séu að skila lægra kolefnisspori á hvert veitt tonn en þau sem eldri eru og stunda svipað veiðimynstur.
Bílar og tæki
FISK Seafood og Soffanías Cecilsson eru í dag með 13 bíla í rekstri auk þess sem félögin hafa allmarga lyftara í notkun. Flestir bílarnir ganga ennþá einungis fyrir jarðefnaeldsneyti og verður hugað að breytingum þar að lútandi við endurnýjun bílaflotans. FISK Seafood notast við rafmagnsknúna lyftara innanhúss en ennþá eru jarðefnaeldsneytislyftarar notaðir úti. Áður en ráðist verður í rafvæðingu bílaflotans þarf að koma upp hleðslustöðvum á helstu akstursleiðum.
Viðskiptaferðir
Árið 2020 og 2021 var nánast ekkert um ferðalög vegna Covid-19. Hinsvegar er annað uppi á teningnum eftir að takmarkanir voru afnumdar. Á vegum samstæðunnar flaug starfsfólk okkar 120.737 km ýmist innanlands eða út fyrir landsteinana sem leiðir til losunar á 10,3 tCO2 ígildum.