Félagslegir þættir
Mannauðurinn
FISK Seafood er fjölskylduvænn vinnustaður og leggur áherslu á jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Á meðal þess er skipulagning veiðiferða langt fram í tímann og er ekki hvikað frá þeim áætlunum nema í þvinguðum undantekningartilfellum. Þannig leggjum við okkar lóð á vogarskálar þess að sjómenn okkar geti skipulagt fjölskyldulíf sitt og viðburði í einkalífinu án óvissu um úthald hverju sinni. Þegar yfirvinna býðst hefur starfsfólk FISK Seafood val um hvort það nýti slík tækifæri. Yfirvinna stendur öllum innan sama starfs jafnt til boða og er áhersla lögð á það að henni sé deilt jafnt með þeim sem hana vilja þiggja.
Vellíðan á vinnustað er lykilforsenda góðra vinnubragða og langtímasambands á milli fyrirtækisins og starfsfólks þess. Hluti af því er staðgóð næring á vinnutíma. Allt starfsfólk hefur aðgang án endurgjalds að heitum mat í hádeginu, auk þess sem hollur og næringarríkur morgunverður og fjölbreyttir millimálsbitar standa þeim til boða á vinnutíma.
Alls voru 278 starfsmenn hjá samstæðunni um áramótin 2022/2023. Hlutfall starfsmanna annars vegar til sjós og hins vegar lands breytist lítið á milli ára og er hlutfallið yfirleitt í kringum 50/50. Sem fyrr hallar enn verulega á hlutfall annarra kynja en karla og skýrist það helst af því að nær eingöngu karlar sækja í störf sjómanna hjá félaginu.
Starfsmannahópur samstæðunnar er mjög fjölbreyttur og kemur starfsfólkið okkar frá 10 löndum. Erlent vinnuafl sækir orðið meira í almenn fiskvinnslustörf heldur en íslenskt verkafólk. Á myndinni má sjá þróun í fjölda íslenskra og erlendra starfsmanna í fiskvinnslum samstæðunnar.
Allir stjórnendur FISK Seafood samstæðunnar hafa það að leiðarljósi að félagið virðir almenn mannréttindi, gildandi kjarasamninga og önnur lögbundin réttindi. Félagið mismunar ekki starfsfólki út frá kyni, kynhneigð, uppruna eða trú. FISK Seafood hefur einsett sér að óútskýrður launamunur fari ekki yfir 5 % og til að tryggja það hefur félagið haft gilda jafnlaunavottun samkvæmt ÍST85:2012 staðli síðan 2019.
Jafnlaunavottun
Meginreglur í launastefnu FISK Seafood eru:
- Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlauna staðlinum ÍST 85:2012, það skjalfest og því viðhaldið. Afla vottunar faggilds aðila og viðhalda slíkri vottun samkvæmt staðli
- Framkvæma launagreiningu að minnsta kosti einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni
- Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti
- Uppfylla skilyrði staðals um innri úttektir og athugun / stjórnenda árlega
- Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem varða fyrirtækið á hverjum tíma og staðfesta að farið sé að lögum
Starfsmannafélög
Á öllum vinnustöðum er mikilvægt að hafa virk starfsmannafélög. Slík félög eru vettvangur fyrir starfsfólk til að hittast utan vinnutíma og kynnast betur og með persónulegri hætti en ella. FISK Seafood samstæðan styður starfsmannafélögin með ýmsum hætti, m.a. með fjárhagslegri umbun fyrir aðstoð starfsfólks á umhverfis- og sjómannadegi, gluggaþvott í húsnæði fyrirtækisins o.fl. slík vinna eflir liðsanda á vinnustöðum og þjappar hópnum saman.
„FISK Seafood nálgast verkefni sín af mikilli virðingu fyrir þeirri auðlind sem fyrirtækinu er trúað fyrir
Fræðsla
Síðustu tvö árin hefur verið unnið að gerð námsefnis og innleiðingu á Eloomi fræðsluforriti fyrir landvinnsluna á Sauðárkróki. Vel hefur gengið að koma efninu áleiðis til starfsfólks í gegnum stafrænar lausnir enda þótt yfirstíga hafi þurft ýmsar hindranir. Helstu áskoranir okkar, og margra annarra fyrirtækja í sjávarútvegi, eru fólgnar í því að við erum fjölþjóðlegur vinnustaður þar sem sumir starfsmenn tala jafnvel hvorki íslensku né ensku.
Sjómennirnir okkar sækja sér grunnfræðslu ásamt símenntun til Slysavarnaskóla sjómanna og á síðasta ári fóru 25 einstaklingar í endurmenntun sem alls nemur um 200 fræðslustundum á árinu, eða átta stundum á hvern starfsmann. Námskeiðin samanstóðu af hefðbundinni símenntun í öryggismálum, nýliðafræðslu um öryggisþætti og sjúkrahjálp í skipum. Miðað er við að hver sjómaður sæki sér endurmenntun hjá Slysavarnaskóla sjómanna að minnsta kosti á fimm ára fresti.
Í töflunni hér að neðan má sá dæmi um samantekt fræðslustunda annarsvegar hjá sjómönnum FISK Seafood og hins vegar hjá starfsfólki landvinnslunnar á Sauðárkróki.
2021 | 2022 | |
---|---|---|
Gæðamál | 152 | 146 |
GÁMES (HACCP) | 76 | 36 |
Rekjanleiki afurða | 8 | 71 |
Öryggismál | 38 | 8 |
Skyndihjálp | 280 | 0 |
Slysavarnaskóli sjómanna | 94 | 200 |
Ýmislegt | 76 | 142 |
Öryggismál
Öryggi starfsfólks í vinnu sinni fyrir FISK Seafood er félaginu stöðugt keppikefli. Áhersla er lögð á virkt vinnuverndarstarf sem er sinnt af öryggisfulltrúum og öryggisvörðum.
Við hvetjum starfsfólk okkar til þess að láta vita um bilanir eða það sem betur mætti fara á starfsstöðvum okkar. Brugðist er við hvers kyns ábendingum eins fljótt og auðið er.
Í lok árs var innleidd ný öryggis- og þjálfunarhandbók í skip félagsins. Grunnur að bókinni var samstarfsverkefni Samgöngustofu, Siglingaráðs og Slysavarnaskóla sjómanna þar sem FISK Seafood og áhöfnin á Drangey SK-2 tók þátt í þróunarferlinu. Handbókin er byggð á ISM (International Safety Management) öryggis- og umhverfisstaðli fyrir skip.
FISK Seafood er virkur þáttakandi í öryggishópi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Slys
Um árabil hefur FISK Seafood notað atvikaskráningakerfi VÍS, ATVIK, og tók meðal annars þátt í þróun á ATVIK – sjómenn, sem nú er gagnagrunnur í eigu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Allir starfsmenn eru hvattir til að skrá ábendingar, næstum slys, minniháttar slys, fjarveruslys (meira en tveir dagar frá vinnu) og ógn sem þeir verða fyrir við störf hjá félaginu. Starfsfólk getur skráð með snjalltækinu sínu eða í tölvum í sameiginlegum rýmum á starfsstöðvum. Samantekt skráninga á ábendingum og næstum slysum hefur skilað sér í auknum úrbótum á starfsstöðvum og aukinni árvekni og öryggisvitund starfsmanna.
Á árunum 2020-2022 hefur okkur tekist að fækka fjarveruslysum á sjó og í landi. Hins vegar hefur skráningum á minniháttarslysum fjölgað til sjós og er það vegna aukinnar hvatningar frá félaginu að sjómenn skrái bæði stærri og smærri atvik. Í landi eru algengustu fjarveru-, og minniháttarslysin vegna vinnu með handverkfæri þegar fólk sker sig eða stingur við snyrtingu á fiski. Árið 2020 tókum við í notkun tregskerandi hanska í landvinnslunni á Sauðárkróki sem hafa leitt til fækkunar á skurðarslysum en koma síður í veg fyrir stunguslys.
Samfélagið
FISK Seafood, Soffanía Cecilsson og Steinunn ehf. veita nærsamfélagi sínu margvíslegan fjárhagslegan stuðning, einkum til íþróttafélaga og góðgerðarmála. Íþróttaiðkun barna og unglinga hefur mikið forvarnargildi og sterkir afreksíþróttahópar eða -einstaklingar eru í senn mikilvæg hvatning og fyrirmynd þeirra sem yngri eru. Við höfum lagt ýmsum íþróttagreinum og einstökum deildum þeirra lið með kaupum á búnaði, styrktarauglýsingum og fleiru. Við höfum einnig verið styrktaraðilar einstakra móta og lagt okkar af mörkum með beinum fjárstuðningi við rekstur einstakra afreksíþróttadeilda.
Árið 2022 afhentu félögin styrki til íþrótta-, góðgerðar- og menningarmála sem skiptust þannig:
Umhverfisdagurinn
Árlegur Umhverfisdagur FISK Seafood rann upp þann 7. maí en á þeim degi mæta flestir sem vettlingi geta valdið á Sauðárkróki og víðar til þess að hreinsa rusl úr fjörum, vegköntum og víðar. Markmiðið er að taka til hendinni í nærumhverfinu og fegra það með því að hittast og fara í skipulagða plokkferð í krafti hópeflisins. Þátttakendur gátu ánafnað einhverri íþróttadeild verðmæti vinnu sinnar og greiddi FISK Seafood viðkomandi deild 10.000 krónur fyrir framlag hvers og eins. Fjöldi þátttakenda var hvorki meira né minna en 522 talsins á öllum aldri og voru alls hirt upp um 8,7 tonn af rusli í fjörum og víðar. Eftir tínsluna hittist hópurinn í húsnæði FISK Seafood þar sem boðið var upp á heita súpu, grillaðar pylsur, samlokur o.fl.
Skóli og atvinnulíf
Við leggjum okkar af mörkum til tengslanna á milli skóla og atvinnulífs. Á árinu fórum við í heimsókn til nemenda í 9. bekk Árskóla og fræddum þá um áskoranir félagsins í umhverfismálum. Var þetta gert í tengslum við verkefni Matís sem heitir „Grænir frumkvöðlar framtíðar“. Einnig gáfum við öllum grunnskólum í Skagafirði og Grundarfirði kennslubækur fyrir nemendur á unglingastigi þar sem unnið er með hvatningu og ráð fyrir einstaklinga í vegferðinni til að verða sinnar eigin gæfu smiður.
Í haust gáfum við öllum nemendum í málmiðnaðardeild Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra öryggisskó, en þeir eru hluti af þeim búnaði sem nemendur á brautinni verða að útvega sér til að geta stundað námið. Gjöfin var hluti af stærra verkefni sem Byko, Hagi og FNV standa fyrir en þar fá allir nemar á fyrsta ári öryggisbúnað að gjöf.
Á árinu afhenti FISK Seafood Háskólanum á Hólum húsnæði fyrrum fiskeldisstöðvar félagsins í Hjaltadal að gjöf. Einnig var skólanum færð peningagjöf vegna flutnings og frekari uppbyggingar á aðstöðu fiskeldisdeildar skólans sem síðastliðin tæp 20 ár hefur verið án endurgjalds í húsakynnum FISK Seafood. Vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar hátæknifrystihúss FISK Seafood á Eyrinni var óhjákvæmilegt að finna starfsemi skólans nýtt húsnæði auk þess sem bekkurinn var orðinn þröngt setinn í þessari langvarandi bráðabirgðaaðstöðu skólans á Sauðárkróki.
Innkaup
Félagið leggur áherslu á verslun og viðskipti í heimabyggð og það skiptir því miklu máli að í henni sé öflug þjónusta á ýmsum sviðum. Einnig leggjum við áherslu á að kaupa eins mikið af aðföngum innanlands og frekast er unnt. Árið 2022 var 99% af aðkeyptum vörum og þjónustu í gegnum íslenska birgja og þar af voru 55,7% allra viðskipta gerð við nærsamfélagið, það er fyrirtæki á Norðurlandi vestra eða á Snæfellsnesi.
Sjómannadagurinn
FISK Seafood hélt sjómannadaginn hátíðlegan og sóttu bæjarbúar heim fjölbreytta dagskrá fyrir börn og fullorðna. Boðið var í skemmtisiglingu um borð í Drangey SK-2 þar sem Ágúst Ómarsson skipstjóri og áhöfn hans tóku vel á móti gestum og sigldu með þá út á fjörð. Eftir að komið var í land tók við fjölskyldudagskrá með tilheyrandi skemmtiatriðum og alls kyns veitingum. Um kvöldið var starfsfólki FISK Seafood að venju boðið til kvöldverðar í íþróttahúsinu á Sauðárkróki.
Samfélagsspor
Samfélagsspor samstæðunnar gefur heildstæða mynd af öllum opinberum gjöldum og sköttum sem greiddir eru til hins opinbera vegna starfsemi félagsins. Samstæðan greiddi 1.631 milljón króna í skatta og gjöld á árinu 2022. Einnig innheimti samstæðan 1.265 milljónir kr. á árinu af starfsfólki fyrir ríkissjóð. Samfélagsspor starfseminnar árið 2022 er því alls 2.895,6 milljónir króna.
2021 | 2022 | |
---|---|---|
Tekjuskattur | 381.553 | 243.740 |
Tryggingargjald | 221.229 | 289.604 |
Mótframlag í lífeyrissjóði | 323.014 | 396.435 |
Veiðigjöld | 414.157 | 394.276 |
Gjöld til hafnarsjóða | 120.871 | 147.888 |
Aðrir skattar og gjöld | 159.151 | 66.730 |
Kolefnisgjald | 93.270.288 | 91.898.935 |
Innheimtir skattar vegna einstaklinga | 946.134.800 | 1.265.049.889 |
Samtals | 2.566.109.794 | 2.895.620.941 |